03/12/2009

2 vikur.

Í dag er fimmtudagur. Það þýðir 2 vikur í brottför.

Eitt próf búið. Tvö eftir.

Félagsfræðin í gær var fín. Páfagaukalærdómur hentar mér alveg afskaplega vel. Marx, Durkheim og hnattvæðingin fengu að kenna á því. Tókst að handskrifa 9 blaðsíður um það í prófinu og ég get ekki neitað því að mér var orðið sjúklega illt í hendinni svona í lokin. En ég fékk mér kaffi og kanilsnúð í verðlaun eftir að hafa lokið prófinu, svo það var mjög góður dagur.

Íslenska stjórnkerfið er svo á mánudaginn. Maður veit alveg helling um þetta. Verður bara gaman að læra fyrir það.

Ég var samt á kaffihúsi í nokkra klukkutíma í dag að reyna að glósa fyrir hagfræði sem er síðasta prófið. Það gekk alveg ágætlega. Þessi grein gæti alveg verið skemmtileg ef maður myndi hella sér út í að læra hana. Bara nenni því voða lítið. Áhugi minn á Phillips kúrvunni og hagkvæmu gjaldmiðilssvæði er af mjög skornum skammti.

Ég flýg út 17.desember. Þá er planið að gista í Danmörku í 1 nótt og halda litlu-jól með Gunnari. Við ætlum út að borða saman og svo enda kvöldið í jólatívolíinu. Það verður örugglega sjúkt. Svo held ég bara áfram til Sölden morguninn eftir. Verð komin þangað um kvöldmatarleytið 18.desember. Þá hefur maður 2 frídaga til þess að snjóbrettast áður en vinnan byrjar.

Það verður mjög spes að eyða jólunum í útlöndum, en þetta er sem betur fer ekkert kanarí. Þetta eru alparnir og þar verður sko nóg af snjó. Meina, hvað er jólalegra en einmitt snjór?

Ég er að spá í að kúpla mig út úr tilverunni í kvöld og slaka bara aðeins á. Skrifa jafnvel jólakortin og fara í slakandi bað. Þessi próf, þrátt fyrir að þau séu nú ekki mörg, eru samt þreytandi. Maður kemst í svo vont skap alltaf á því að hugsa um þau.

Annars óska ég ykkur öllum gleðilegra prófa.

24/11/2009

Endalokin nálgast.

Ég sit hér á bókasafninu á Tryggvagötunni með hálftóman kaffibolla og bókina Discovery of society opna fyrir framan mig. Hún er fín.

Ég er að rembast við að koma mér í prófagírinn. Það er ekki nema vika í próf og mér finnst það ógnvekjandi. Ég klára svo prófin eftir rúmar tvær vikur, svo þetta verður ekkert of hræðilegt. Maður hefur víst lent í því verra. Ég er ekki að hata það að vera að fara að klára þessa önn og komast í langþráð skólafrí.

Það er akkúrat mánuður í Aðfangadag. Þá verð ég stödd í Austurrísku Ölpunum að vinna. Planið er nú samt að taka með sér fínan kjól, malt&appelsín og finna jólatré einhverstaðar. Reyni samt að taka sem fæstar jólagjafir með mér út, enda er yfirvofandi yfirvigt farangursins míns óumflýjanleg.

Ég er komin með svo mikið ógeð á skóla. Ég er að taka mér tölvupásu eftir að hafa þraukað í gegn um 30 blaðsíður af 130. Slæmt.

Annars er þessi gella löngu byrjuð á að hlusta á jólalög og borða piparkökur. Það er svo móðins.

Ég vann mína síðustu vakt í Eymundsson í bili á sunnudaginn. Það er nú fínt.

Ég þarf að fara að vinna í jólakortunum, maður verður víst að senda allmörg stykki í ár. Það er bara kósí. Búin að kaupa nokkur stykki og svona. Gerði það reyndar í október. Ég er of mikið jólabarn til að vera ekki heima um jólin. Oooo.

Ég get varla beðið eftir Asíu. Mamma er samt að reyna að sannfæra mig um að fara ekki. Pff.

,,Ég er sko í keppni við Sveppa og Audda og ef þú gefur mér nærbuxurnar þínar fæ ég 4 stig. Hvað segiru, ertu til?" - Spurði haugadrukkinn maður mig að í strætó á sunnudagsmorgni. Maður er hvergi óhultur ...

17/11/2009

Mánuður.

Í dag er 17.nóvember. Ég flýg út eftir mánuð í dag. VÓAH.

Annars eru bara 4 helgar í brottför.

21-22.nóv - óákveðið
28-29.nóv - Vinna og læra fyrir jólapróf
5-6.des - Jólapróf
12-13.des - Sumarbústaður

Ég á of lítinn tíma eftir á Íslandi. Það er svo mikið sem þarf að stússast í áður en ég fer. Hvað þarf maður að hafa með sér til útlanda ef maður ætlar að vera í burtu í kannski 8-10 mánuði? Ég er allavega búin að kaupa mér snjóbretti, svo það kemur með. Og nýji bakpokinn minn sem er svo hardcore að hann er vatnsheldur. Ég veit að ég þarf að hafa með snjóföt og sólgleraugu. Malaríutöflur sem kosta hálfa hendina og vegabréfið.

Annars sit ég hér á kaffitár og læri. Það eru 2 vikur í jólaprófin og það er að bíta mig í rassinn hvað ég er búin að vera ódugleg að lesa þessar bækur. Ojæja.

Ég á ekki að vera að hanga á netinu, en þúst. Glósurnar úr HÍ eru allar á netinu. Það er verið að bjóða uppá afþreyingarvandamál.

Planið er annars bíó í kvöld. 2012. Ég veit ekki hvað ég er að láta hafa mig út í. Ég og gjöreyðingarmyndir erum engin sálufélagar.

En aftur til Durkheim og Marx ...

11/11/2009

Bólusetningar.

Það er allt að gerast.

Í gær kom ég svo miklu í verk að það ætti að vera ólöglegt. Ég vaknaði fyrir allar aldir. Var mætt upp í skóla um 8 og naut þess að drekka kaffi og lesa fréttablaðið fyrir hagfræðitímann. Skilaði inn síðasta verkefni vetrarins og naut þess í botn. Fór svo í ræktina að lyfta. Maður þarf að vera orðin smá sterkur þegar maður fer í ævintýraferð úti í heim. Svo reddaði ég mér ferðatryggingu út árið 2010. Hitti svo Huldu á kaffihúsi. Kominn tími til.

Síðan átti ég læknistíma hjá Ferðavernd sem sér um bólusetningar fyrir ferðamenn. Ég kom þarna inn bara til að spjalla um það hvernig sprautur ég þyrfti og annað. Ég er sem betur fer búin að fá barnaveiki og stífkrampasprautuna. Guði sé lof. En allt annað er eftir. Konan byrjaði allt í einu bara að týna til sprautur og ég bara .. hvað í andskotanum er konan að gera. Ég var ekki búin að undirbúa mig andlega undir það. Það átti að gerast seinna!

En konan vildi endilega bara byrja að sprauta mig á staðnum. Það væri svo stutt í að ég færi út að það væri ekkert vit í því að bíða. Þannig ég laggst á bekk. Fékk eina sprautu í hvora hendi. Lifrarbólga A & B og taugaveiki. Síðan skolaði ég þessu niður með kólerudrykk. Fékk svo reikning upp á 18.200 krónur í andlitið. Sjáumst eftir mánuð í aðra svona umferð. Þetta setur mig á hausinn. En ég held þó allavega lífi.

Svo þarf ég að fá 2 sprautur úti í Austurríki. Þriðju lifrarbólgusprautuna og bólusetningu gegn japanskri heilabólgu. Hún tilkynnti mér það konan að ef þú smitaðist af heilabólgunni væru 60% líkur á því að þú dæir. Vúpsí. En nei, Ísland flytur bóluefnið ekki inn. Æjæj.

Redda þessu í Austurríki.

Var að átta mig á því að ég fer eftir mánuð og 6 daga til Austurríkis. Svo eru bara 170 dagar í Asíu. Við ferðahópurinn hittumst á kaffihúsi í gær og ræddum málin. Hópurinn samanstendur af mér, Liljari, Dagmar og Stellu. Í bili allavega. Fórum yfir ferðaáætlunina og svona. Það var alveg mjög gott að fá að rabba aðeins um þetta. Verður alltaf raunverulegra og raunverulegra að maður sé að fara ...

Við byrjum í Malasíu, svo Laos, Kambódía, Tæland, aftur til Malasíu, svo Indónesía, Gilli eyjar, Singapore og svo endum við í Ástralíu og tökum þar hringinn.

Annars er allt gott að frétta af mér. Ég trúi því varla að það sé minna en mánuður þangað til ég er BÚIN með háskólann.

Það gengur ekkert fyrir okkur að finna vinnu fyrir Liljar í Austurríki. Það var planið. Það er að feila. Verður smá leiðinlegt að skilja hann eftir í 4 mánuði, en hey. Ég hef snjóbretti.

Djöfull á ég eftir að verða góð á snjóbretti þegar ég kem heim. Vona að það fari að koma snjór bráðum svo ég geti prufukeyrt það áður en ég fer út. Sé það samt ekki gerast. Búhú.

En ég mæli ekki með Couples retreat.

,,Nú ætlaru til Asíu. Við mamma þín héldum að þú hefðir bara sagt svona.'' - Sagði pabbi við mig í gær þegar ég talaði við hann um ferðatrygginguna. Foreldrar mínir hafa greinilega mikla trú á mér í ævintýraleitinni ...

08/11/2009

Kuala Lumpur.

Það er svolítið langt síðan ég bloggaði síðast. Vúpsí.

Í dag er ég allavega í Háskólanum að læra stjórnmálafræði. Vísindaferðir og fyrirlestrar. Ég elska að hata það og ég hata að elska það. Ég er allavega komin með það viðbjóðslega mikinn skólaleiða að ég flý land þann 17.desember. Ég er búin að segja mig úr einum áfanga og er bara í 24 einingum núna. Hagfræði, félagsfræði, vinnulagi og íslenska stjórnkerfið. Orðið á götunni er að félagsfræðin verði killer próf. Það eru víst of margir nýnemar í félagsfræðingnum og það þarf að vera með klásus á þau. Við græðum á því í stjórnmálafræðinni, þ.e.a.s. við fáum smá ögrun í þessum prófum.

Samt ógeðslega fáránlegt að vera allt í einu bara að taka 3 jólapróf með nægan tíma á milli til þess að læra. Hvað er ég komin í?

En já. Ég mæti ekki vel í tíma. Það eina sem ég geri í þessum skóla þessa dagana er að skila inn ritgerðum og verkefnum. Læt það nægja. Sparka svo í skólaleiðann rétt fyrir próf, næ þeim öllum, fæ námslán og svo bara bless bless Ísland.

17.desember ... bara 1 mánuður og 10 dagar. Sjitt.

Ég er að fara að flytja til Austurríkis þá. Í 4 mánuði. Að vinna á veitingastað uppi í skíðabrekkunni í Austurrísku Ölpunum. Finnst það semí geðveikt. Búin að kaupa mér snjóbretti og allt.

Svo er planið að koma bara ekkert heim. Eins og staðan er í dag þá fer ég í smá evróputúr í apríl þegar vinnutörninni í Austurríki er lokið og enda í London 2.maí þar sem ég tek flugvél til Kuala Lumpur með nokkrum krökkum. Þá á að hefjast 4 mánaða reisa um Suð-austur Asíu og Ástralíu.

Við stoppum við í Malasýu, Tælandi, Búrma, Laos, Víetnam, Kambódíu, Indónesíu og endum á Gilli Gilli eyjum að kafa. Förum svo yfir til Ástralíu og verðum þar í 3-4 vikur. Það væri yfirnáttúrulega yndislegt að fá vinnu þar og koma ekkert heim fyrr en næstu jól. Verða úti bara í heilt ár. Það er alveg komin tími á það að maður fari að sjá heiminn svolítið. Þá á maður ekki svo mikið eftir. Bara Ameríkuna, suð og norður.

Er samt smá stressuð yfir þessum bólusetningarsprautum sem ég þarf að fá fyrir ferðina. Þær eru ógeðslega dýrar og ég er skíthrædd við að fá sprautur. Ég veit vel að ég verði að fá þær. Hef allavega lítinn áhuga á því að smitast af taugaveiki, lifrarbólgu eða mænusótt.

Ég er líka hrædd við skordýrin sem verða þarna. Og Kambódía er ekki öruggasti staðurinn í heiminum. Maður er bara spenntur með svona pínu drulluhræðslu á meðan. Má mann það?

Ég er samt svo viðbjóðslega full af tilhlökkun yfir þessu öllu saman. Flyt út af Vesturgötunni núna eftir viku. Spara smá pening áður en ég fer út. Jiii.

Svo fer maður alveg að verða komin með ógeð á þessum flutningum fram og til baka. Akranes-Reykjavík-Akranes ... Urgh.

24/06/2009

Sólarvörn.

Ég er alltaf á leiðinni að blogga. Finnst bara stundum eins og ég hafi ekkert til að segja við heiminn lengur.

Það er sumar. Líður samt smá eins og það sé það ekki.

Ég geri lítið annað en að vinna og vera pirruð þegar ég er í fríi. Ég þarf alltaf að hafa ofan af fyrir mér. Það gengur ekkert allt of vel stundum. Maður þarf alltaf að hafa eitthvað að stafni, annars fer maður bara að hugsa um brunann og allt það sem er leiðinlegt. Og það vill maður náttúrulega ekki. Ég er samt hætt að geta lesið bækur. Get bara horft á sjónvarp eins og andlaus hjólbarði. Þá þarf maður sko ekkert að nota heilann. Bara glápir og glápir.

Næsti vetur á að bera með sér betri tíma og blóm í haga. Þá fer ég á skólabekk í HÍ, að læra stjórnmálafræði og þýsku.

Vandamálið með næsta vetur er einfalt. Peningaleysi.

Ef ég fer til Danmerkur og verð þar eitthvað á flakki í allan ágústmánuð, þýðir það að ég á ekki eftir að eiga neinn pening þegar ég byrja í háskólanum. Af hverju ekki? Jú af því allur minn sparipeningur hefur farið í að kaupa hluti sem ég átti fyrir brunann.

Ég verð samt eiginlega að eiga pening, af því ég verð að flytja til Reykjavíkur. Ég bý hjá mömmu og pabba hérna á Akranesi í sumar, sem átti alltaf að vera millibilsástand, og er ágætt svosem. Málið er bara það að ég bý í örsmáu herbergi. Það kemst ekkert fyrir hérna inni nema rúm, sjónvarp og ein hilla. Það lifir enginn þannig.

Mig vantar skrifborð og minn eigin fataskáp og bækur og fallega hluti til að hafa í kring um mig.

Mig vantar að flytja í bæinn og fá minn eigin stað. Byrja upp á nýtt. Vantar samt líka pening til að kaupa mér alla þessa nýju hluti.

Það er of erfitt að vera fátækur námsmaður. Ekki misskilja, ég mun vinna helling með háskólanum í vetur eins og áður, ef ég fæ vilyrði fyrir vinnu áfram. En ég er samt í einhverjum fjárhagsörðugleikum hérna.

Það væri ljúft að geta bara siglt til Hawaii og setið á ströndinni allan daginn og þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu öðru en sólarvörn.

Eeeen. Lífið er tík.

19/04/2009

Sjitt.

Ég hef alltaf verið dýrindis námsmaður. Þangað til núna.

Það eru 6 klst í stúdentspróf í jarðfræði. Próf sem vegur 6 einingar. Ég á enn eftir að frumlesa 3 kafla plús læra allt utanað. En ég meina ... ég var í sama pakkanum fyrir söguprófið um jólin og var svo með hæstu einkunnina í bekknum. Stelpan, hún kann þetta ...

Magnús átti afmæli í gær. Það var yndislega kósí og frábært afmæli. Hann bauð bestu vinum sínum í mat og partý. Lítið af fólki og góð stemming. Ég gat samt varla skemmt mér. Þetta minnti mig of mikið á afmælið sem ég ætlaði að halda.

Ég hafði látið Svölu sannfæra mig um að halda uppá afmælið mitt á Klapparstíg 11 eftir að við værum búnar að flytja og bjóða bara bestu félögunum. Það varð svo aldrei neitt úr því vegna ... Tjah, brennuvargs.

Ég fer að flytja aftur heim næstu daga. Heim til mömmu, enn og aftur. Ég ræð ekki við leiguna og einsemdina. Það er tvennt ólíkt að leigja herbergi með 2 hressum vinkonum þínum á sama aldri og að leigja herbergi inná kunningjum sem eru eldri en þú. Tvennt mjög svo ólíkt.

Ég hef ákveðið að flytja helst ekki í bæinn næsta haust nema ég fari að leigja með einhverju hressu fólki á mínum aldri. Ég nenni ekki að leigja herbergi inná einhverjum aftur, né að leigja ein. Við sjáum til.

Ég hef ekki enn fengið vinnu í sumar og mig langar eiginlega bara í háskólann í sumar. Það væri örugglega yndislegt.

Mig langar svo að eiga yndislegt sumar. Ég á það svo ógeðslega mikið skilið. Ég ætti skilið sumar sem myndi bara samanstanda af Jamboree, Írskum dögum, þjóðhátíð, útlandaferðum og Rhódos.

Ég flyt annars inn í gamla forstofuherbergið heima. Nema hvað, það virðist mun minna en það var fyrir 4 árum síðan. Ég kem engu þar inn nema rúminu mínu og einni hillu. Ekki það, ég á hvort sem er ekkert dót.

Dimmissio á miðvikudaginn. Charlie Chaplin, hér kem ég.

20/03/2009

Ný gildi.

Á vissan hátt er maður þakklátur fyrir það sem maður hefur gengið í gegn um.

Þetta setur hlutina í samhengi. Lífið, það er að segja.

Þetta sýnir manni hverjir er virkilega til staðar, og hverjir ekki. Sýnir manni hvað er þess virði og hvað ekki. Sumir hafa orðið mér fyrir miklum vonbrigðum. Aðrir hafa komið mér á óvart.

Stundum óskar maður þess að lífið væri fullkomið. Án vandræða.

En þá væri maður ekki sú manneskja sem maður er í dag. Ég er alvöru manneskja fyrir vikið. Ég veit það.

Vinur minn bað mig að brosa um daginn fyrir sig. Ég væri hætt því. Ég gleymi því bara stundum. Vantar kannski tilefni.

Það kemur.

21/02/2009

Sjóvá: skítapakk.

Já góðir hálsar. Það er orðið opinbert. Lífið er ósanngjarnt og ömurlegt.

Tryggingarnar neita að borga mér krónu. Ætli það þyki ekki nógu mikil neyð á Íslandi í dag að missa ofan af sér húsnæðið vegna þess að einhver hálfviti ákveður að kveikja í því. Missa svo aleiguna í þokkabót.

Ég yfirgef Ísland eftir stúdent.

Það er allt að ganga frekar illa þessa dagana. Hvað er ég samt að segja "frekar illa" ? Það gengur auðvitað hörmulega. Ég held að þú getir varla lent í ömurlegri aðstæðum en þetta.

Ég hef ekki orku í neitt. Mig langar bara til þess að fá tíma til að vinna upp hlutina. Vinna upp glataðan tíma. Vinna upp glósur. Get það ekki vegna þess að ég er í vinnu og ég er í skóla. Finnst ömurlegt að það sé ætlast til þess að ég taki próf, skili ritgerðum og flytji fyrirlestra.

Ég skil þetta ekki. Ég trúi þessu ekki. Ég nenni þessu ekki.

Ég er bara búin á því.

Ég vil frí.

16/02/2009

Mánuður.

Já góðir hálsar.

Í nótt var mánuður síðan Klapparstígur 17 brann.

Ég var einmitt að pæla í því af hverju mér hefði liðið svona illa í nótt.

Ég mætti samt í skólann í dag. Ekki vel sofin. Tók próf í íslensku.

Ég breytti karmanu í herberginu í dag. Kristjana kom í heimsókn og við endurröðuðum öllu hérna inni. Núna líður mér einstaklega vel á Birkimelnum.

Á morgun er þriðjudagur. Þeir eru ömurlegir. Ástæða: tvöfaldur stærðfræðitími.

,, I still haven't found what I'm looking for.'' - U2 ...