30/10/2007

Jólin, jólin allstaðar.

Já góðir hálsar. Ég get ekki sofið. Ég svaf heilu og hálfu dagana þegar ég var veik og það virðist ætla að duga mér eitthvað áfram.

Ég fór út á land bæði á sunnudaginn og mánudaginn, og það var snjór yfir öllu. Veturinn er að ganga í garð. Á sunnudeginum skelltum við heimilisfólkið okkur á Geysi. Maður verður víst að sýna útlendingnum landið aðeins, þó það nú væri. Hann á eftir að sjá svo margt. Gullfoss og Þingvellir eru á listanum, og svo langar honum rosalega að sjá Norðurland. Því ákvað ég að við færum norður milli jóla og nýárs og skelltum okkur á snjóbretti. Svo verður að sjálfsögðu stoppað hjá ömmu og afa á Hvammstanga í leiðinni og fengið sér eitthvað í gogginn.

Á mánudaginn var Njáluferð. Árgangurinn komst í 3 rútur, og voru Hilla, Kristín og Berglind góðir ferðafélagar. Ég lærði ekki mikið í ferðinni, enda lestri bókarinnar ekki lokið og snjórinn var meira freistandi heldur en kennslan. Ég lærði þó, að það er ekki hægt að sofa í rútu. Til að drepast ekki úr leiðindum voru teknir nokkrir klassískir drepa-tímann-leikir. Það kom virkilega á óvart hvað það reyndist gaman, enda þarf ekki mikið til að skemmta mér. Hápunktar ferðarinnar eru án efa þegar Trausti datt með hausinn ofan í lækinn og þegar við þurftum að snúa við til að ná í Skender, en hann gleymdist hjá einhverjum fossi greyið.

En já. Snjórinn er kominn, jólaskreytingarnar eru komnar í Blómaval og Húsasmiðjuna. Það þýðir bara eitt, jólin eru í nánd. Nánar tiltekið eftir 53 daga. Jólin eru uppáhalds tími ársins hjá mér. Ég ætla að kaupa jólatré og hafa hér í íbúðinni. Ég ætla að skreyta og búa til snjóengla, skrifa á jólakort og kaupa jólagjafir, horfá teiknimyndir á aðfangadag og drekka heitt kakó. Jólunum verður vonandi eytt í Pennanum í Smáralind með Berglindi, en ég sótti um vinnu þar í gær.

Ég man þegar maður bar út jólakortin þegar maður var lítill. Þá fórum við systkinin í jólasveinabúninga, skelltum á okkur skeggi og hlupum á milli húsa. Líka þegar minn árgangur flutti jólasveinaleikritið í 7.bekk um jólasveininn sem fór til Hollywood. Ég sakna litlu jólanna í skólanum og jóladansleikjanna sem maður fór alltaf á. Maður lærir hinsvegar að meta jólin betur með aldrinum og njóta þeirra. Það geri ég allavega.

Ég vil jól. Samt ekki jólapróf. Það eru bara 4 vikur í prófin, og ég kann ekki skít í lífrænni efnafræði, efnafræði og eðlisfræði. Það var ekkert allt of sniðugt að skipta um braut svona seint. Ojæja ..

Sumarbústaður um helgina. Ég hlakka til. Ég verð á bíl, sem er bara heitt. Án vetrardekkja, sem er ennþá heitara. Það jákvæða við að lenda í bílslysi á leiðinni heim er að þá þarf ég ekki að mæta í vinnuna daginn eftir. Ég hata að vinna í Blómaval. Við erum alltaf svo undirmönnuð eitthvað. Fíla það ekki. Ef ég fæ vinnuna í Pennanum segi ég upp þar 1.desember. Ég krossa bara fingurna og vona það besta. Annars held ég að ferilskráin mín fari að líta illa út bráðum. Ég er búin að vinna á svo mörgum stöðum um ævina að það kemur út eins og það sé alltaf verið að reka mig. Ég fæ bara fljótt leið á vinnu, það er gallinn við mig. Ég þarf alltaf að skipta um umhverfi reglulega. Kannski er það þessvegna sem ég hef skipt um braut tvisvar í MR, á meðan meðalnemandinn hefur aldrei gert það ...

Ég var að finna allar myndirnar síðan af böllum í grunnskóla í tölvunni minni. Ég þarf endilega að koma þeim inná netið við tækifæri. Það er samt rosalega sárt að skoða myndir af sér í 10.bekk og sjá þetta síða, ljósa, krullótta hár.

,, Þú ert ömurlegur Akranesdjammari.'' - Sagði Lára við mig þegar ég tilkynnti henni að ég myndi beila á öðru ballinu í röð núna um helgina ...

No comments: