Það er allt að gerast.
Í gær kom ég svo miklu í verk að það ætti að vera ólöglegt. Ég vaknaði fyrir allar aldir. Var mætt upp í skóla um 8 og naut þess að drekka kaffi og lesa fréttablaðið fyrir hagfræðitímann. Skilaði inn síðasta verkefni vetrarins og naut þess í botn. Fór svo í ræktina að lyfta. Maður þarf að vera orðin smá sterkur þegar maður fer í ævintýraferð úti í heim. Svo reddaði ég mér ferðatryggingu út árið 2010. Hitti svo Huldu á kaffihúsi. Kominn tími til.
Síðan átti ég læknistíma hjá Ferðavernd sem sér um bólusetningar fyrir ferðamenn. Ég kom þarna inn bara til að spjalla um það hvernig sprautur ég þyrfti og annað. Ég er sem betur fer búin að fá barnaveiki og stífkrampasprautuna. Guði sé lof. En allt annað er eftir. Konan byrjaði allt í einu bara að týna til sprautur og ég bara .. hvað í andskotanum er konan að gera. Ég var ekki búin að undirbúa mig andlega undir það. Það átti að gerast seinna!
En konan vildi endilega bara byrja að sprauta mig á staðnum. Það væri svo stutt í að ég færi út að það væri ekkert vit í því að bíða. Þannig ég laggst á bekk. Fékk eina sprautu í hvora hendi. Lifrarbólga A & B og taugaveiki. Síðan skolaði ég þessu niður með kólerudrykk. Fékk svo reikning upp á 18.200 krónur í andlitið. Sjáumst eftir mánuð í aðra svona umferð. Þetta setur mig á hausinn. En ég held þó allavega lífi.
Svo þarf ég að fá 2 sprautur úti í Austurríki. Þriðju lifrarbólgusprautuna og bólusetningu gegn japanskri heilabólgu. Hún tilkynnti mér það konan að ef þú smitaðist af heilabólgunni væru 60% líkur á því að þú dæir. Vúpsí. En nei, Ísland flytur bóluefnið ekki inn. Æjæj.
Redda þessu í Austurríki.
Var að átta mig á því að ég fer eftir mánuð og 6 daga til Austurríkis. Svo eru bara 170 dagar í Asíu. Við ferðahópurinn hittumst á kaffihúsi í gær og ræddum málin. Hópurinn samanstendur af mér, Liljari, Dagmar og Stellu. Í bili allavega. Fórum yfir ferðaáætlunina og svona. Það var alveg mjög gott að fá að rabba aðeins um þetta. Verður alltaf raunverulegra og raunverulegra að maður sé að fara ...
Við byrjum í Malasíu, svo Laos, Kambódía, Tæland, aftur til Malasíu, svo Indónesía, Gilli eyjar, Singapore og svo endum við í Ástralíu og tökum þar hringinn.
Annars er allt gott að frétta af mér. Ég trúi því varla að það sé minna en mánuður þangað til ég er BÚIN með háskólann.
Það gengur ekkert fyrir okkur að finna vinnu fyrir Liljar í Austurríki. Það var planið. Það er að feila. Verður smá leiðinlegt að skilja hann eftir í 4 mánuði, en hey. Ég hef snjóbretti.
Djöfull á ég eftir að verða góð á snjóbretti þegar ég kem heim. Vona að það fari að koma snjór bráðum svo ég geti prufukeyrt það áður en ég fer út. Sé það samt ekki gerast. Búhú.
En ég mæli ekki með Couples retreat.
,,Nú ætlaru til Asíu. Við mamma þín héldum að þú hefðir bara sagt svona.'' - Sagði pabbi við mig í gær þegar ég talaði við hann um ferðatrygginguna. Foreldrar mínir hafa greinilega mikla trú á mér í ævintýraleitinni ...
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment